Arenal og Playa del Coco

9 11 2009

Daginn eftir tónleikana fórum við með Simone, George og Josée í roadtrip til Arenal sem er uppistöðulón við virkt eldfjall. Eldfjallið er búið að gjósa síðan 1968 og er alltaf smá hraun sem gýs upp um toppinn á fjallinu. Náttúrufegurðin á staðnum var rosaleg og við gistum á frábæru hóteli. Það var reyndar var “íslenskur” malarvegur sem lá að því síðasta hálftímann eða svo en það var alveg þess virði, auk þess sem að þetta var bílaleigubíll sem við vorum á:) Ferðin tók ca. tvo tíma, en á þessum stutta tíma sem tók að keyra þetta sáum við tvö alvarleg slys og einn húsbruna á leiðinni. Kosta Ríka búar kunna ekki að keyra. Hér ríkir frumskógarlögmálið í umferðinni, ekki þeir hæfustu lifa af samt, heldur þeir stóru éta þá litlu frekar. Gangandi vegfarendum er meira ráðlagt að líta á sig sem skotmörk frekar en vegfarendur og gangstéttir er eitthvað sem fólk hér hefur hreinlega ekki heyrt eða séð. Fólk getur keypt sér bílpróf hérna og okkur er sagt að þetta sé önnur kynslóð bifreiðaeigenda sem líklega lærði að keyra í kjöltunni á Jóse frænda á traktornum á bananaakrinum. Hótelið var eins og áður sagði frábært með sundlaugarbar og heitum potti og herbergin voru með risagluggum sem snéru að eldfjallinu og útsýni yfir vatnið hinum megin. Við vorum nánast með staðinn útaf fyrir okkur þar sem við vorum ekki alveg á annatíma þarna. Það rigndi nánast allann tímann sem við vorum þarna en það var alveg gaman að sjá eldingarnar lýsa upp eldfjallið og vatnið meðan við borðuðum kvöldmatinn í matsalnum sem var með 180° útsýni yfir allt svæðið. Rafmagnið fór líka á meðan við borðuðum sem var líka til að bæta stemninguna. Okkur leið svolítið eins og persónum í b-hryllingsmynd “fimm háskólakrakkar fara í roadtrip að eldfjalli og gista á afskekktu sveitahóteli þegar rafmagnið fer…” eða fyrir þá sem hafa séð Dantes Peak þá erum við, við ræturnar á virku eldfjalli muniði(hinir geta flett henni upp á imdb.com).
Þegar við vorum búin að borða morgunmat fórum við í Baldí hot springs sem eru heitar laugar hitaðar af hverunum á svæðinu. Það voru einhverjar 30 laugar þar og sú heitasta var 67° sem hlýtur bara að vera of heitt fyrir bókstaflega alla og ætluð til að sjóða nestið eða eitthvað slíkt. Þarna var einhver sú allra brjálaðasta vatnsrennibraut sem við höfum farið í, byrjuðum sitjandi efst en síðan komum við eiginlega ekkert við brautina sjálfa sem spýtti okkur svo út nokkrum metrum neðar og við fleyttum kellingar á vatninu þangað til við loksins fórum á kaf með fullt nefið og augun af vatni. Það meikaði sens svona eftir á að það var bæði vörður uppi og niðri við rennibrautina sem kannski hefði átt að segja okkur eitthvað, en þetta var gaman!
Síðan keyrðum við í 3 tíma nánast hringinn í kringum vatnið og sem leið lá í gegnum Guanacaste sem er það sem kalla mætti landbúnaðarsvæðið hérna alla leið að kyrrahafströndinni að stað sem heitir Playa del Coco. Þar fundum við glænýtt og rosaflott ítalskt gistiheimili sem var með sundlaug og loftkælingu og ekki dýrt. Daginn eftir förum við á ströndina og ég, George og Oddný förum í sjóinn, sem er frekar gruggugur alveg í flæðarmálinu, við erum ekki búin að vera lengi út í þegar Oddný snýr við og ætlar í land og hreinlega öskrar af sársauka og það er eins og hún hafi skorið sig á einhverju eða eitthvað bitið hana. Við George erum rétt á eftir henni og vitum eiginlega ekki hvaðan stendur á okkur veðrið og styðjum hana í land. Fljótlega kemur í ljós að ekki er allt með felldu því sársaukinn ágerist bara. Það drífur að fullt af fólki sem segir okkur að þetta hafi líklega verið “mantaraya” eða skata og halinn hafi líklega skorið hana. Þetta var frekar djúpur skurður og það blæddi helling. Það var hringt á sjúkrabíl sem var nú frekar lengi á leiðinni svo loksins þegar hann kom var hann ekki með neitt nema velviljaðan rauðakross-starfsmann innanborðs sem var nú frekar rólegur yfir þessu öllu saman. Stakk upp á volgu vatni fyrir fótinn, sem hann var að sjálfsögðu ekki með með sér í bílnum því það eina sem var í bílnum voru 1 stk. sjúkrabörur og ekkert annað, en allan tímann orgaði Oddný greyjið af sársauka blótandi á spænsku og talandi við allt fólkið sem hafði safnast saman þarna í kring. Loksins komumst við þó af stað með sjúkrabílnum en tókum þó upp í 11 ára strák, bróðir hans og vin þeirra. Strákurinn hafði líka verið stunginn á sömu strönd og nú fórum við öll á sjúkrahúsið í næsta bæ sem var alveg 20 mínútur í burtu, þau bæði að drepast úr sársauka þar sem skatan spýtir eitri sem er virkar víst alveg skemmtilega vel á taugakerfið í okkur mönnunum. Þegar við komum á sjúrahúsið voru þau bæði sprautuð og virkaði það vel á litla strákinn strax en Oddný var kvalin áfram þangað til þeir föttuðu að hann fékk fjórar sprautur en hún eina! Stuttu eftir að hún fékk aðra sprautu lagaðist hún. En kona sem við hittum á spítalanum líkti kvölunum af völdum stungu skötunnar við að eignast barn, enn vitum við ekki alveg hvað konunni gekk til með þessari samlíkingu kannski er þetta notað sem getnaðarvörn hér á Kosta Ríka þar sem fóstureyðingar eru bannaðar og smokkar eru aðeins nýlega komnir á markaðinn hér þar sem þetta er kaþólskt samfélag. Þegar við komum aftur á hostelið ca. 3 tímum seinna fréttum við að þetta sé árstíminn sem sköturnar séu við ströndina sem var alveg svona sirka 3 og hálfum tíma of seint fyrir okkur! Einnig var minnst á Steve Irvin sem var víst ekki eins heppinn með viðskipti sín og skötunnar. Restinni af ferðinni eyddum við bara á sundlaugar bakkanum og eins fjarri ströndinni og við gátum.


Aðgerðir

Information

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
%d bloggurum líkar þetta: